ÆÐUR
Somateria mollissima

FÆ: Æða
DA: Ederfugl
NO: Ærfugl
SÆ: Ejder
EN: Eider
ÞÝ: Eiderente
FR: Eider à duvet
NA: Common Eider

Æðurin, eða æðarfuglinn eins og tegundin er oftast nefnd, er af ættbálki gásfugla eða andfugla, ANSERIFORMES. Sá ættbálkur greinist í tvo undirbálka, annarsvegar Anhimae og hinsvegar Anseres. Æðurin er af hinum síðarnefnda. Þaðan greinist hún svo til andaættarinnar, Anatidae, sem hefur að geyma um 140 tegundir fugla. Eitt af megineinkennum þeirrar ættar er flatt nef þar sem hliðarnar mynda nadda eða skíði úr hyrni en framendinn harða plötu, svonefnda nögl. Fæðan er margvísleg, bæði dýrakyns og jurta, og er nefið breytilegt eftir fæðuháttum.

Andaættin brotnar svo í Anserinae, með um 33 tegundir, og Anatinae (eiginlegar endur), þar sem eru um 110 andategundir. Andaættin er tegundaflesta fuglaættin hér á landi. Alls eru um 25 tegundir árvissar og þar af 18 reglubundnir varpfuglar.

Deildir Anatinae eru 6-9 talsins, allt eftir því við hvaða flokkunarkerfi er stuðst. Æðurin er ýmist látin tilheyra þeirri sem ber heitið Somateriini (æðarfuglar) og inniheldur alls fjórar tegundir sem allar búa á norðurhveli jarðar og eru í tveimur ættkvíslum eða þá flokkuð í deildinni Mergini (fiskiendur). Hér er fyrri kosturinn tekinn. Somateriini klofnar því næst í tvennt, annarsvegar er ættkvíslin Somateria (eiginlegir æðarfuglar) og hinsvegar Polysticta. Tilheyrandi hinni fyrrnefndu eru, auk æðurinnar, æðarkóngur og gleraugnaæður og hinni síðarnefndu blikönd.

Æðurin er yfirleitt talin stærst allra anda, 50-71 cm að lengd, um 2.000 g að þyngd að meðaltali (kvenfuglar 1.192-2.895 g, karlfuglar 1.384-2.875 g) og með 80-108 cm vænghaf. Hér er um svo þekktan fugl að ræða að varla er þörf á að lýsa honum í mörgum orðum. Í sumarbúningi er blikinn svartur á kolli, með hliðum og að neðanverðu, annars að mestu hvítur Hnakki er þó grænleitur og bringan með roðablæ. Höfuðlagið er mjög líkt og hjá álftinni. Nefið er gulgrænt og litur sterkastur við nefrótina, á íslenskum fuglum gjarnan rauðgulur. Nöglin er grá. Kollan er sviplausari, gulbrún, með brúnsvörtum þverrákum. Gulbrúni liturinn er þó afar mismunandi eftir einstaklingum; gamlar kollur eru yfirleitt ljósastar. Nefið er dökkgrátt. Fætur að mestu gráir á kvenfuglum, örlítið slegnir gulu á karlfuglum.

Útbreiðslusvæðið er að heita má allt norðurhvel jarðar. Um fimm deilitegundir er að ræða og greinast þær einkum eftir mismunandi formi nefs og litar við rótina (frá gulu yfir í rauðgult; sbr. áðurnefnt). Nafntegundina, S. m. mollissima, er að finna með ströndum NV-Evrópu (Frakklands, Bretlands og þaðan upp til Nóvaja Semlja), S. m. faeroeensis um Færeyjar, S. m. dresseri við austurhluta N-Ameríku, S. m. borealis í norðanverðu Atlantshafi (við Baffinsland, Grænland, Ísland, Svalbarða og Frans Jósefsland) og S. m. v-nigrum á Beringshafi.

Æðurin er staðfugl hér við land og mjög félagslynd. Hún er mestan hluta ársins bundin við sjó, einkum meðfram ströndum, og hefur reyndar allt lífsviðurværi sitt þaðan. Að vetrarlagi geta hóparnir talið jafnvel þúsundir fugla. Snemma vors gengur hún á land í auknum mæli, í fjöruna til að byrja með eins og til að búa sig undir aukna dvöl á þurru yfir varptímann. Og þar er líka oft margt um fuglinn. Svo gerist hún djarfari og fer ofar og innar þegar líða tekur að sjálfum eggjatímanum sem er breytilegur eftir landshlutum en víðast hvar þó í hálfnuðum maí.

Hreiðrið er oftast einhverskonar skál eða dæld í snögglendi, ýmist í fjöru, á bökkum og töngum voga og lóna, í eyjum og á hólmum eða jafnvel með ám alllangt inn til landsins, allt að 30 km frá sjó. Það er fóðrað með þykkum dúni sem hefur borið nafn og hróður þessarar andategundar víða. Að auki eru ýmis önnur efni í hreiðrinu, eins og t.d. gras og þang; ræðst slíkt af varpstaðnum. Oft er æðurin á þessum tíma í sambýli við kríu og svartbak. Eggin er yfirleitt 4-6 talsins en geta verið 1-8. Þau eru oftast grænleit, stundum þó blá, einlit, tiltölulega stór. Útungunartími er 25-28 dagar og sér kollan ein um áleguna. Blikinn stendur oft nærri hreiðrinu, einkum í upphafi varpsins, en dregur sig í hlé ásamt öðrum félögum sínum þegar líða tekur á, og heldur á fellistöðvar.

Nýklaktir ungarnir eru dökkgráir að lit, alþaktir dúni. Þeir eru hreiðurfælnir; leiðir móðirin þá til sjávar um leið og hinn síðasti er kominn úr eggi og allir orðnir þurrir. Yfirleitt deyr mikið af ungunum fyrstu dagana og talið að orsakarinnar sé að leita í fæðuframboðinu hverju sinni, eins og hjá öðrum andarungum. Mikil áraskipti eru að afkomunni. Þeir ungar sem lifa verða að fullu sjálfstæðir 55-60 daga gamlir og fleygir 65-75 daga.
Ungir blikar líkjast í fyrstu kollunni en verða síðar kaffibrúnir á höfði og óreglulega hvítflikróttir, mest á framhálsi og efst á bringu. Þeir verða kynþroska (2-)3 ára.

Í felubúningi, þ.e.a.s. á meðan á endurnýjun fjaðurbúnaðar stendur, eru kynþroska blikar líkir kollum en töluvert dekkri. Að auki er alltaf eitthvað hvítt í búningi þeirra sem ekki er hjá kollum, mismunandi þó eftir fellistigi.

Aðalfæða æðurinnar er lindýr, einkum kræklingur. Hún er dugleg til matar síns; einhverju sinni munu hafa fundist 185 slíkir í maga eins fugls. Þó er hún ekki vandlát á annað sem hafið býður upp á og hún ræður við. Mætti þar nefna ýmis smávaxin botndýr. Æðurin athafnar sig venjulega á grynningum eða þar sem er 1-3 m dýpi en getur kafað mun dýpra, eða allt að 40 m. Kollur með unga, og þeir sjálfir, lifa að stærstum hluta til á marflóm.

Æðurin er þung á sér á landi enda fæturnir tiltölulega stuttir miðað við búkinn. Einnig eru vængirnir litlir miðað við heildarþyngd skepnunnar. En vængjaslögin eru hröð og kröftug og stefnan ákveðin. Kemur þetta sér vel fyrir hana því oftar en ekki er hún, einkum á veturna, í eilífri baráttu við storma og vinda er þá geysast með ströndum fram. Æðurin á reyndar metið í jöfnum flughraða eða 21m/sek er þýðir 76 km/klst.
Rödd kollunnar er djúp stuna eða kurr en blikarnir gefa frá sér hið undarlega en ómþýða og vel þekkta “úa” eða “úhú”.

Íslenski æðarstofninn er talinn hafa að geyma 200.000-300.000 varppör. En hér við land eru auk þess vetrarstöðvar og sennilega fellistöðvar æðarfugla frá A-Grænlandi og Svalbarða.

Önnur heiti tegundarinnar eru m.a. æð, æðfugl og æðifugl. Veturliði nefnist bliki á 1. vetri en sumarliði hins vegar bliki á 1. sumri (þ.e.a.s. ársgamall; ungasumarið er ekki talið með) og kvenfuglinn æða eða æðikolla.

Elsta æður, sem ég á heimildir um, náði því að verða 26 ára gömul. En eflaust getur þessi mesti nytjafugl landsins gert enn betur.

Upp

Mynd og texti: Sigurður Ægisson